Kinesioteip

Kinesioteip er litríka teipið sem flestir hafa séð íþróttafólk (og fleiri) skarta. Ekki jafn margir vita hvaða gagn það gerir.

Kinesioteip kom á markað á áttunda áratugi síðustu aldar. Það var þróað af Dr. Kenzo Kase, en hann þróaði teipið vegna þess að honum þótti hin hefðbundna gerð teipa hamla hreyfigetu sjúklinga sinna. Hefðbundin teipun veitir vöðvum og liðamótum stuðning, en getur í sumum tilfellum skert hreyfigetuna. Sumir telja að það geti tafið batarferlið með því að takmarka flæði líkamsvessa undir húðinni.
Kinesioteipið er hinsvegar ólíkt öðrum sjúkra- og íþróttateipum því það lyftir húðinni og stuðlar að betra flæði líkamsvessa og dregur það úr sársauka og bólgum. Hugmyndafræðin á bak við það byggist á því að teipið styðji við náttúrulegan lækningarmátt líkamans.

Þegar kinesioteipið er sett á er byrjað á því að athuga með vöðvaprófunum hvaða vöðvi, sin eða liðband er í ólagi eða hvar innra mein liggur (bólgur, mar, stíflur). Kinesioteipið er svo límt á húðina.

Virkni kinesioteipsins er aðalega fernskonar:
-verkjastilling
-vöðvavirkni
-sogæðavirkni
-verkun á liði

Nokkrar staðreyndir:

* Kinesioteipið er sett á líkamann á ákveðinn hátt, þannig að það losar um þrýsting af völdum húðar, límplásturinn lyftir húð örlítið upp frá vöðva þannig að meira pláss myndast milli vöðvans og húðarinnar og eykur þannig blóðfæði og sogæðaflæði um svæðið og flýtir fyrir losun bólguvaldandi efna.
*Kinesioteipið er sett á líkamshluta sem orðið hefur fyrir áverka eða hnykk svo verkur, doði eða orkuleysi hefur hlotist af. Mismunandi aðferðum er beitt eftir því hver meiðslin eru.
* Kinesioteipið eflir sogæðastreymi um vöðva og er því mjög gott við bólgu, bjúg og öllum blæðingum, djúpum og grunnum (undir húð).
*Rof á vöðvafelli (fascia) /bandvef heftir vöðvastarfsemi og veldur verkjum, með sérstakri ásetningu límplástursins eykst gróandi vöðvafellsins og eðlileg vöðvastarfsemi endurheimtist.

 

Í mörgum tilfellum er kinesioteipið góður kostur, en að sjálfsögðu er það ekki alltaf besta svarið við meiðslum. Gott er að hafa það sem verkfæri með öðrum meðhöndlunum.